Sparifjáreigendur í Bretlandi njóta góðs af vaxtastríði sem komið er upp meðal innlánsstofnana. Breski bankinn HSBC leiðir baráttuna um sparifé fólks með því að bjóða upp á 8% vexti en Kaupþing fylgir fast á eftir með því að bjóða 6,5% vexti á innlánsreikningum.
Á fréttavef Times kemur fram að HSBC býður bæði núverandi og nýjum viðskiptavinum sem opna innlánsreikning fyrir 31. mars upp á 8% vexti á innlánum. Jafnframt er þeim boðið upp á að fá yfirdráttarlán upp á allt að 1 þúsund pund. En líkt og oft áður má ekki gleyma smáa letrinu. Þeir sem fara að þessum kjörum þurfa að greiða 12,95 pund í þóknun á mánuði, sem gerir 155,40 á ári en til þess að fá þessi kjör þarf að greiða þóknunina í að minnsta kosti eitt ár. Jafnframt fá viðskiptavinir HSBC 8% vexti af fjárhæðum undir 1 þúsund pundum en mun lægri vexti eftir það. Ef yfirdrátturinn reynist yfir 1 þúsund pund þá þurfa viðskiptavinir HSBC að greiða 16,1% í yfirdráttarvexti.
Kemur fram í frétt Times að þrátt fyrir að Kaupþing bjóði upp á lægri vexti heldur en HSBC þá séu færri fyrirvarar sem gerðir eru um stöðu reikninga bankans heldur en hjá samkeppnisaðilanum. En innlánsreikningarnir sem um ræðir hjá Kaupþingi eru allir netreikningar.
Þegar Kaupþing kynnti afkomu sína á síðasta ári kom fram í máli Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, að bankinn hafi aukið áherslu sína á innlán og í október hóf bankinn starfsemi innlánabanka á netinu fyrir almenning sem kallast Kaupthing Edge og nær nú til fimm landa.
Hreiðar segir þetta hafa skilað sér í nærri 30 þúsund viðskiptavinum í innlánaviðskipti. Hlutfall innlána af útlánum viðskiptavina hafi aukist í 42% í fyrra og stefnt sé að 50% í ár.