Samkvæmt frétt í breska blaðinu Scunthorpe Telegraph í gær er Bakkavör að íhuga lokun á verksmiðjunni Pasta Company í bænum Scunthorpe. Segir í fréttinni að 107 störf séu þar með í hættu.
Ákvörðun um lokun hefur ekki verið tekin en viðræður munu fara fram næstu mánuðina við stjórnendur og starfsmenn verksmiðjunnar um framhaldið.
Bakkavör hefur verið aðaleigandi verksmiðjunnar í nokkur ár en hún var hluti af samstæðu Geest. Hefur reksturinn verið erfiður undanfarna mánuði vegna hækkandi framleiðslukostnaðar, einkum á hveiti og eggjum, og minnkandi eftirspurnar á markaði.
Í fréttinni er vitnað í þingmenn og fleiri af svæðinu sem lýsa miklum áhyggjum af atvinnuástandinu í Scunthorpe.