Breskir sparifjáreigendur hvattir til varúðar gagnvart íslenskum bönkum

Breskir ráðgjafar ráðleggja sparifjáreigendum að fara varlega í viðskiptum við íslenska banka og leggja ekki meira en 35 þúsund pund, eða jafnvirði um 4,6 milljóna króna, inn á  innlánsreikninga hjá bönkunum.

Blaðið The Sunday Times segir frá þessu í dag og vísar til þess að matsfyrirtækið Moody's hafi í janúar tilkynnt að verið væri að yfirfara lánshæfismat íslensku bankanna sem allir eru nú með lánshæfiseinkunnina Aa3. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er von á niðurstöðu Moody's í þessari viku.

Netinnlánsreikningar Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi hafa notið vaxandi vinsælda enda er þar boðið upp á háa vexti. Talið er að um 5 milljarðar punda séu á Insave reikningum sem Landsbankinn hefur boðið upp á frá því í október 2006 og Kaupthing Edge vakti athygli fyrir að bjóða 6,86% innlánsvexti.

The Times segir, að þótt reikningarnir njóti ábyrgðar stjórnvalda bæði á Íslandi og í Bretlandi sé hámark bóta 35 þúsund pund. Meðal inneign á Icesave reikningum er 38 þúsund pund og talið er að sumar fjölskyldur eigi yfir 1 milljón punda á slíkum reikningi. 

Haft er eftir Kevin Mountford  hjá Money-supermarket, að margir sparifjáreigendur eigi töluvert meira en 35 þúsund pund inni á Icesave reikningum en í ljósi núverandi aðstæðna sé slíkt óráðlegt.

Þá er haft eftir Sue Hannums hjá ráðgjafarfyrirtækinu AWD Chase de Vere, að fyrirtækið mæli með bönkum sem ábyrgist innstæður viðskiptavina en ekki sé hægt að mæla með því að hafa meira en 35 þúsund pund inni á hverjum reikningi.

Blaðið hefur eftir Mark Sismey-Durrant, framkvæmdastjóra Icesave, að lausafjárstaðan sé afar góð og engin hætta á ferðum. Tilkynning Moody's hafi verið óþægileg en verið sé að fara yfir stöðu margra banka, ekki aðeins íslensku bankanna, vegna ástandsins í efnahagsmálum heimsins.

Kaupthing Edge hóf starfsemi í Bretlandi fyrir þremur vikum og býður 0,3 prósenta ávöxtun umfram meðalbankavexti til 2012. Blaðið hefur eftir Guðna Aðalsteinssyni hjá Kaupþingi, að lausafjárstaða bankans sé traust og Ashley Whittaker, yfirmaður innlána, tekur í sama streng. „Peningarnir ykkar eru í öruggum höndum hjá Kaupþingi."

Frétt Time

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK