Búist er við, að gengi bréfa breska matvælaframleiðandans Greencore hækki í verði í fyrramálið vegna frétta í írskum fjölmiðlum um að Ágúst og Lýður Guðmundssynir hafi keypt allt að 8% hlut í fyrirtækinu í gegnum fyrirtæki sín. Þá er einnig fullyrt, að kaupsýslumaðurinn Robert Tchenguiz hafi eignast allt að 10% hlut.
Á fréttavef The Sunday Business Post segir, að þetta gefi orðrómi um að yfirtökutilboð sé væntanlegt byr undir báða vængi. Hugsanlegt sé að þeir Ágúst og Lýður vilji sameina samlokugerð Greencore og matvælafyrirtækið Geest, sem Bakkavör yfirtók.