Reutersfréttastofan segir, að frétt í blaðinu Sunday Times, þar sem breskir sparifjáreigendur voru varaðir við að leggja háar fjárhæðir inn á netsparireikninga Landsbankans og Kaupþings, hafi valdið ókyrrð á fjármálaheiminum í morgun. Rekja megi lækkun hlutabréfa fjármálafyrirtækja og gengi krónunnar í morgun til greinarinnar.
Talsmenn bankanna tveggja segja hins vegar, að neikvæðar fréttir af íslenska bankakerfinu hafi ekki haft áhrif á umrædda reikninga. Haft er eftir Hjördísi Ísabellu Kvaran hjá Landsbanka, að 175 þúsund manns hafi opnað svonefnda Icesave reikninga og vinsældir reikninganna hafi farið vaxandi.
Kaupþing býður upp á svonefnda Kaupthing Edge innlánsreikninga í Bretlandi. Báðir bankarnir segjast tryggja innlánsvexti sem séu 1 prósenti yfir stýrivöxtum Englandsbanka.
Gengi bréfa bankanna og annarra fjármálafyrirtækja hefur lækkað umtalsvert í dag. Hafa bréf Exista lækkað um 6,5%, bréf Glitnis, FL Group og Straums-Burðaráss um 3%, Landsbankans um 2,3% og Kaupþings um 2%.
Sunday Times vísaði í gær til þess að alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's hefði nýlega tilkynnt að lánshæfismat allra íslensku bankanna yrði endurskoðað með hugsanlega lækkun í huga. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er búist við því að Moody's sendi frá sér tilkynningar um lánshæfismat bankanna í vikunni.