Stjórn Glitnis segir í yfirlýsingu að enginn vafi leiki á því, að mati stjórnarinnar, að kaup á hlutabréfum Bjarna Ármannssonar í bankanum á síðasta ári hafi fallið innan valdheimilda stjórnar og verið eðlileg í alla staði. Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur, sagðist í gær vera að undirbúa málshöfðun vegna þessara kaupa.
Yfirlýsing stjórnar Glitnis, sem Þorsteinn M. Jónsson, stjórnarformaður, skrifar undir, er eftirfarandi:
„Þegar samið var við fráfarandi forstjóra um kaup á bréfum hans í bankanum á genginu 29 hafði hlutbréfaverð í OMX kauphöllinni hækkað mikið frá áramótum. Gengið endurspeglaði markaðsaðstæður og væntingar á þeim tíma. Gengi hlutabréfa í bankanum hélt áfram að hækka á vormánuðum 2007 og fram á mitt sumar, en 29. júlí fór lokagengi bankans í 30,90.
Nýkjörin stjórn bankans taldi æskilegt að við forstjóraskipti yrði gengið með skýrum hætti frá starfslokum fráfarandi forstjóra. Það fól í sér að félagið keypti öll hlutabréf hans í bankanum.
Að mati stjórnar leikur enginn vafi á því að umrædd kaup féllu innan valdheimilda stjórnar og voru eðlileg í alla staði."