Vilhjálmur Bjarnason hefur, fyrir hönd stjórnar Félags fjárfesta, sent Fjármálaeftirlitinu bréf þar sem spurt er hvort stofnunin hafi bannað SPRON að birta upplýsingar um viðskipti stjórnarmanna, en það kom fram í yfirlýsingu, sem stjórn SPRON sendi frá sér á föstudag.
Þá spyr Vilhjálmur í béfinu á hvaða lagagrundvelli slík fyrirmæli kunni að hafa verið reist hafi Fjármálaeftirlitið bannað birtingu umræddra upplýsinga. Einnig spyr Vilhjálmur hvort Fjármálaeftirlitið líti svo á, að öðrum sparisjóðum sé bannað að birta upplýsingar um viðskipti fruminnherja með eignarhluti í hlutaðeigandi félögum.
„Stjórn Samtaka fjárfesta vísar til þess að á síðasta ári áttu nokkur þúsund fjárfestar viðskipti með stofnfjárhluti í sparisjóðum fyrir tugi milljarða króna. Vegna umfangs þessara viðskipta telur stjórnin brýnt að öllum vafa sé eytt um hvort heimilt hafi verið eða skylt að birta upplýsingar um viðskipti fruminnherja í umræddum félögum. Leiki einhver vafi á því, beinir stjórnin þeim tilmælum til FME að honum verði eytt," segir m.a. í bréfi félagsins.