Óttast íslenska kollsteypu

Danska viðskiptablaðið Børsen fjallar í dag um íslenskt efnahagslíf og segir að á alþjóðlegum fjármálamarkaði séu vaxandi áhyggjur af stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja og vísar m.a. til þess að í gær hafi íslenska krónan lækkað mikið gagnvart evru og öðrum myntum.

Ekki sé óhugsandi að stóru íslensku fjárfestingarfélögin gætu lent í miklum erfiðleikum og athyglin beinist einkum að Exista en eigið fé félagsins hafi dregist mjög saman að undanförnu. 

Blaðið segir, að Exista hafi fjárfest í íslenskum og norrænum fjármálafyrirtækjum á borð við Kaupþingi og Sampo Group, en markaðsvirði þessara félaga hafi minnkað mikið að undanförnu vegna lánsfjárkreppunnar á alþjóðlegum mörkuðum.

Exista segir hins vegar, að báðar þessar fjárfestingar séu hugsaðar til langs tíma. 

Børsen segir, að Exista sé eitt stærsta fyrirtækið á Íslandi og markaðsvirði þess sé nú um 167 milljarðar íslenskra króna. En útreikningar, sem norræni bankinn Nordea hafi gert fyrir blaðið, sýni að Exista sé nálægt því að vera tæknilega greiðsluþrota.

Blaðið segir, að eigið fé fyrirtækisins hafi verið jafnvirði 238 milljarða íslenskra króna í síðasta uppgjöri en þegar tillit hafi verið tekið til gengislækkunar hlutabréfaeignar félagsins í þeim fyrirtækjum, sem skráð eru á markaði og viðskiptavildar séu aðeins um 13,4 milljarðar eftir af eigin fé.

„Ef aðeins er horft til þeirrar hlutabréfaeignar fyrirtækisins, sem skráð er á markaði, og hún reiknuð á markaðsvirði, og bókfærð viðskiptavild er jafnframt fjarlægð þá eru skuldir fyrirtækisins álíka miklar og hlutabréfaeignin," segir Michael West Hybholt, sérfræðingur Noreda, sem hefur gert útreikningana fyrir Børsen.

Hann bendir þó einnig á, að Exista hafi tryggt sér fjármögnun fyrir starfsemi sína fram á mitt ár 2009 og bókhaldslega hafi fyrirtækið ekki gert neitt rangt. 

Børsen vísar til þess, að matsfyrirtækið Moody's hafi nýlega tilkynnt að verið væri að endurskoða lánshæfiseinkunn Glitnis og Landsbankans. Áður hafði fyrirtækið tekið Kaupþing til endurskoðunar. Moody's vísaði til óveðursskýja yfir bankamarkaðnum en Michael West Hybholt segir, að margir fjárfestar hafi lengi verið afar tortryggnir í garð íslenskra banka.

„Vegna eignatengsla íslenskra fyrirtækja er hætta á að fyrirtæki, sem lendir í erfiðleikum, dragi önnur með sér niður," segir hann. 

Grein Børsen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK