Jürgen Stark stjórnarmaður í Seðlabanka Evrópu, sagði á Viðskiptaþingi í dag að ríki verði að ganga í Evrópusambandið áður en það getur tekið upp evru og bætti við að einungis þau ríki sem standast þær kröfur sem sett eru fyrir aðild geti sótt um aðild að myntbandalagi Evrópu. Engar undanþágur hafi verið gefnar þar um.
Stark segir að þess beri hins vegar að gæta að myntbandalagið er ekki lokaður klúbbur og að sjálfsögðu sé hægt að sækja um aðild. „Hins vegar viljum við að þeir sem sæki um komi inn um framdyrnar ekki bakdyrnar," segir Stark.
Þar sem Ísland er í Evrópu og þess fyrir utan aðili að evrópska efnahagssvæðinu þá ætti umsókn að Evrópusambandinu að ganga auðveldlega fyrir sig. Segir hann að lámarkstími frá því að ríki gengur í ESB og þar til það geti tekið upp evru séu tvö ár.