Danska blaðið Ekstra-Bladet hefur beðið Kaupþing banka og Sigurð Einarsson, stjórnarformann bankans, afsökunar vegna greinaskrifa um starfsemi bankans sem birtust haustið 2006. Blaðið mun einnig greiða skaðabætur og bæta Kaupþingi hæfilegan lögfræðikostnað.
Ekki er upplýst hve háar bæturnar eru en talið er að blaðið þurfi að greiða á annað hundrað milljónir íslenskra króna.
Á vef bresku lögfræðistofunnar Schillings kemur fram, að Kaupþing hafi gripið til ráðstafana þegar danska blaðið birti ásakanir á heimasíðu sinni um að bankinn hefði gerst sekur um alvarlegt fjármálamisferli. Greinarnar voru einnig birtar á ensku og því höfðaði Kaupþing málið á Englandi.
Fram kemur, að Ekstra-Bladet hafi fallist á að birta afsökunarbeiðni á vefsíðu sinni, sem verður látin standa þar í mánuð. Þetta var einnig staðfest í sameiginlegri yfirlýsingu, sem lesin var upp í réttarsal í Lundúnum.
Með þessu hafi Ekstra-Bladet fallist á, að Kaupþing hafi ávallt starfað innan ramma laga og í samræmi við góða viðskiptahætti og einnig staðfest, að blaðið hafi aldrei ætlað að gefa til kynna að Kaupþing hefði tekið þátt í glæpsamlegri eða ólöglegri starfsemi.