Uppgjör og skráning hlutabréfa í erlendri mynt er eðlilegur fylgifiskur aukinnar alþjóðavæðingar íslenskra fyrirtækja og forsenda fyrir því að hugmyndir um um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð gangi eftir. Þetta kom fram í erindi Erlends Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi í dag.
Vanhugsað af stjórnvöldum að sporna við þessari þróun
„Ljóst er að íslensk fyrirtæki hafa margvíslegan ávinning af umbreytingu uppgjörs í aðra mynt. Það er vanhugsað af stjórnvöldum að sporna við þessari þróun og stuðla þannig að því að íslensk fyrirtæki standi höllum fæti í alþjóðlegri samkeppni. Regluverk á þessu sviði á ekki að einkennast af boðum og bönnum heldur vera opið, almennt og skilvirkt.
Afstaða Seðlabankans, eins og hún birtist í nýlegri umsögn um uppgjör í evrum, gengur þvert á þessar hugmyndir. Hún virðist fremur byggja á andstöðu gagnvart frekari alþjóðavæðingu og afnámi hafta á íslensku viðskiptalífi heldur en neikvæðum áhrifum af uppgjöri fjármálafyrirtækja á peningastefnu bankans. Þetta er undarlegt í ljósi þess mikla ábata sem framrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði hefur skilað innlendu hagkerfi á undanförnum árum. Í umsögninni er lítið sem ekkert minnst á neikvæðar afleiðingar uppgjörs fjármálafyrirtækja í erlendri mynt.
Það kemur ekki á óvart, enda líklegt að uppgjör fjármálafyrirtækja í erlendri mynt væri fremur til þess fallið að styrkja peningastefnuna en veikja," segir Erlendur.