Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Askar Capital, segir að hefðbundin hagstjórnarráð dugi ekki í dag. Það þurfi að skera upp íslenskt fjármálalíf. Hér verði að koma á sameiningu á bönkum eða öðru þvíumlíku. Segir að þeir sem starfi í fjármálageiranum og einkageiranum almennt verði að líta í eigin barm. Nú dugi ekki að hækka eða lækka vexti. Það hafi ekki úrslitaþýðingu eins og staðan er nú.
Vandamál sem ríkja hér varðandi stöðu krónunnar er sjálfskipað vandamál, sagði Tryggvi Þór í umræðum á Viðskiptaþingi í dag. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, og Róbert Wessman, forstjóri Actavis, tóku undir þetta og sögðu að það væri í höndum stjórnmálamanna að taka ákvörðun um næstu skref.
Hreiðar Már segir nauðsynlegt að lækka vexti þar sem enginn geti staðið undir 14% vöxtum. Segir að Seðlabankinn verði að lækka vexti á morgun og fjármálageirinn verður að hagræða og skoða sameiningu. Þetta gangi ekki lengur eins og staðan er nú. Það gengur heldur ekki að ríkið eigi tvo banka: Íbúðalánasjóð og Seðlabankann. Íbúðalánasjóður reyni að stela frá bönkunum viðskiptavinum með því að bjóða 5,5% vexti og Seðlabankinn láni bönkunum á 14% vöxtum.
Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsi, segir að stjórnvöld beri að miklu leyti ábyrgð á stöðu mála á Íslandi í dag og viðskiptahallinn sé enn of mikill og vextir háir. Hún segir að íslenska krónan sé byrði á útflutningsfyrirtækjunum vegna þeirra sveiflna sem einkenna hana. Hún segir að það sé hins vegar ekki lausnin að skipta um gjaldmiðil heldur að hlúa betur að honum.
Róbert segir að ljóst sé að krónunni verði ekki skipt út á næstu árum og það þurfi að skoða hagstjórnina á Íslandi. Aðgangur að lánsfé hafi verið mjög auðvelt og menn hafi í raun geta fengið mun meira fé til umráða heldur en þeir gátu eytt.
Hvað varðar Actavis þá segir Róbert að erlendir fjárfestar hafi ekki haft áhuga á því á sínum tíma á meðan félagið var enn á markaði að fjárfesta í því þar sem hlutafé hafi verið skráð í krónum.