Ekki útlit fyrir breytingu á stýrivöxtum

Davíð Oddsson
Davíð Oddsson Árvakur/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir að töluverðar breytingar virðist framundan í þjóðarbúskapnum telur bankastjórn Seðlabanka Íslands enn ekki efni til þess að hverfa frá nóvemberspánni sem fól í sér óbreytta stýrivexti fram yfir mitt ár 2008. Þetta kom fram í máli Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á fundi með fjölmiðlum.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,75%. Að sögn Davíðs er verðbólga enn töluvert meiri en það markmið sem bankanum er sett.

„Hagvísar benda til þess að eftirspurn, sérstaklega einkaneysla, hafi vaxið hratt allt til loka sl. árs. Þá gætir enn spennu á vinnumarkaði og kjaraviðræðum er ekki lokið. Gengi krónunnar hefur lækkað og hefur að undanförnu verið lægra en reiknað var með í nóvemberspánni. Verðbólguhorfur til skamms tíma eru því lakari en í nóvember og við stýrivaxtaákvörðun bankastjórnar í desember sl.

Á hinn bóginn hafa fjármálaskilyrði versnað enn frá síðustu vaxtaákvörðun, bæði á alþjóðlegum markaði og innanlands. Dregið hefur úr framboði lánsfjár til heimila og fyrirtækja og lánskjör hafa versnað. Þá hefur hlutabréfaverð lækkað verulega það sem af er ári sem eykur fjármagnskostnað og veikir efnahagsreikning fyrirtækja og heimila. Líklegt er að verðlag fasteigna muni lækka á komandi tíð. Lækkun var spáð í nóvember en hún gæti orðið meiri en þá var reiknað með þótt hún hefjist síðar.

Þessi þróun vinnur með aðhaldsstefnu Seðlabankans og dregur úr vexti eftirspurnar og verðbólguþrýstingi, auk beinna áhrifa lækkandi fasteignaverðs á verðbólguna. Óvíst er hve hratt þetta gerist en ólíklegt er þó að meiri samdráttur í efnahagslífinu en Seðlabankinn spáði í nóvember leiði til hraðari hjöðnunar verðbólgu framan af spátímabilinu.

Gengi krónunnar gæti veikst um leið og dregur úr framboði erlends fjármagns. Það gæti ýtt undir verðbólguvæntingar, valdið launaskriði og þannig tafið hjöðnun verðbólgunnar.

Ekki verður að sinni fullyrt að verðbólguhorfur til lengri tíma hafi breyst að marki frá því í nóvember. Óvissa er þó mun meiri en áður, ekki síst um áhrif versnandi fjármálaskilyrða, bæði minna framboðs lánsfjár og hærra vaxtaálags, á framvindu eftirspurnar og verðbólgu. Til lengri tíma ræðst verðbólguþróunin einkum af samspili gengisþróunar og framleiðsluspennu. Seðlabankinn mun fylgjast mjög grannt með framvindu efnahagsvísbendinga á komandi vikum, ekki síst vísbendingum um áhrif slakari fjármálaskilyrða á útlán og eftirspurn," sagði Davíð Oddsson á fundi með fjölmiðlum í dag.

Hafa átt viðræður við ráðherra um ástand á fjármálamörkuðum

Aðspurður segir Davíð að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að bæta við auka vaxtaákvörðunardegi í mars en ekki sé hægt að útiloka það. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabanka Íslands er áætlaður 10. apríl en ársfundur bankans verður haldinn þann 28. mars nk.

Davíð segir að hann telji að ákvörðun ríkisstjórnar með aðilum á fjármálamarkaði síðar í dag tengist þeim viðræðum sem Seðlabankinn hafi átt með stjórnvöldum um stöðu mála á fjármálamarkaði. Að sögn Davíðs átti bankastjórnin fund með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og formanni Samfylkingarinnar fyrir nokkrum dögum þar sem farið var yfir þessi mál.

Spurður út í stöðu Vilhjálms

Davíð var spurður af fréttamanni á fundinum hvað honum fyndist um stöðu Vilhjálms Vilhjálmssonar, oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg. Davíð svaraði að bragði þar sem hann spurði fréttamanninn hvað honum fyndist um stöðu Huddersfield í ensku knattspyrnunni. Í kjölfarið óskaði Davíð um spurningar sem snéru að málefnum Seðlabankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK