Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði þingi landsins í dag, að efnahagshorfur í Bandaríkjunum hefðu versnað og gaf til kynna, að bankinn væri reiðubúinn til að halda áfram að lækka stýrivexti, ef nauðsyn bæri til.
Bernanke bar vitni fyrir bankamálanefnd öldungadeildarinnar og sagði að samdráttur á fasteigna- og lánsfjármarkaði hefði haft áhrif á efnahag landsins. Fyrirtæki hefðu dregið saman seglin og líklegt væri að úr einkaneyslu dragi. Þá hefði hátt eldsneytisverð sín áhrif.
Sagði Bernanke, að líklega myndi enn frekar draga úr húsbyggingum í Bandaríkjunum.