Forstjóri Deutsche Post, Klaus Zumwinkel, hefur boðist til þess að segja af sér þar sem hann er grunaður um skattsvik. Stendur yfir rannsókn á því hvort hann hafi svikið undan skatti um 1 milljón evra í gegnum fjárfestingar í Liechtenstein, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneyti Þýskalands.
Mun stjórn Póstsins taka ákvörðun um hvort afsögn Zumwinkel taki gildi á fundi sínum á mánudag. Samkvæmt talsmanni Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, styður ríkisstjórnin afsögn hans.
Zumwinkel hefur stýrt Deutsche Post, sem er í meirihluta eigu þýska ríkisins frá árinu 1990. Hann er einnig stjórnarformaður Deutsche Telekom auk þess sem hann situr í stjórn þýska flugfélagsins Lufthansa og stjórn bandaríska fjárfestingabankans Morgan Stanley.