Skuldaálag úr takti við raunverulega stöðu

Bankastjórar Kaupþings, Landsbankans og Glitnis segja stöðu íslensku bankanna sterka en að ljóst sé að skuldatryggingaálag á bankana sé of hátt og ekki í takti við áhættustig þeirra. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs og FL Group, segir í viðtali við Markaðinn sem birt verður á Stöð 2 á mánudaginn að staða bankakerfisins sé mun verri en almennt sé talað um og að skuldaálag á íslensku bönkunum taki mið af því að þeir séu hreinlega gjaldþrota.

Í broti úr viðtalinu sem sýnd voru í þætti Markaðarins í gærkvöldi segir Jón Ásgeir að þetta sé nokkuð sem þurfi að hafa áhyggjur af og sé stórhættulegt fyrir íslensku bankana.

Íslensku bankarnir með sterkustu bönkum í Evrópu

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans segir rétt að gera sér grein fyrir því að töluverður munur sé á íslensku bönkunum, þeir séu mjög misjafnlega metnir erlendis og ekki sé hægt að setja þá alla undir sama hatt. Segir Halldór vitað að skuldatryggingaálag Landsbankans sé innan við 50% af því sem það sé hjá hinum bönkunum tveimur. Því sé ekki rétt að tala líkt og það sama gildi um allt bankakerfið.

Halldór segir skuldatryggingaálag mjög hátt í heiminum í dag og eiginlega úr takti við allt áhættumat á bönkunum. „Það er vel viðurkennt að skuldatryggingaálögin við núverandi aðstæður á markaði gefa ekki til kynna rétt mat á áhættustigi hvers banka."

Hann bendir á að ef horft sé til annarra banka í heiminum t.d. írskra og breskra þá sé þar sömu sögu að segja. Halldór segir hins vegar áhyggjuefni að álög séu almennt svona há.

„En sem betur fer er þetta tímabundið mat, sem ber að taka alvarlega, en endurspeglar þó ekki annað en þá lausafjárstöðu sem er í heiminum almennt." 

Halldór segir íslensku bankana þó standa mjög vel og vera með þeim sterkustu í Evrópu, en lendi í því líkt og bankar um allan heim að vegna stöðunnar á lausafjármörkuðum séu álög svo há sem raun ber vitni. Þá bendir Halldór á að lánshæfismat Fitch á íslensku bankana hafi haldist óbreytt lengi og að tilkynningu Moody's um að endurskoða lánshæfismat bankanna beri að skoða með það í huga að matið sé nú mun hærra en það var fyrir rúmu ári.

Skýringuna að finna í framboði og eftirspurn

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings Group, segir að staðan sé töluvert betri en markaðsaðilar almennt geri sér grein fyrir, og margt jákvætt hafi verið að gerast að undanförnu.

„Jón Ásgeir verður að tjá sig um þau fyrirtæki sem hann tengist, og Kaupþing er ekki eitt af þeim"

Hreiðar segist telja að skuldaálagið muni lækka á komandi mánuðum þegar menn sjái hver staðan sé raunverulega. Skýringar á stöðunni segir Hreiðar að megi fyrst og fremst finna í framboði og eftirspurn, mikið af skuldabréfum hafi verið gefið út og í kjölfar minnkandi lausafjár á mörkuðum hafi eftirspurn minnkað verulega.

„Þetta eru hins vegar ekki þau kjör sem við erum að sætta okkur við í fjármögnun bankans í dag."

Óviðunandi „Íslandsálag"

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, tekur í svipaðan streng og bankastjórar hinna bankanna tveggja og segir ástandið fyrst og fremst endurspegla stöðuna á erlendum mörkuðum.

„Það sem stjórnarformaður FL Group bendir á er svipað því sem komið hefur fram hjá okkur sem störfum í bönkunum,  sem er að skuldatryggingarálag íslensku bankanna er óviðunandi sem stendur og mun hafa íþyngjandi áhrif á starfsemi bankana ef engin breyting verður þar á."

Þá segir Lárus að horfa verði til þess að skuldatryggingaálagið sé almennt hærra fyrir öll fjármálafyrirtæki nú en áður hafi verið enda ríki lausafjárkreppa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

„Það virðist þó vera sem að íslensku bankarnir þurfi, eins og staðan er núna, að greiða einskonar Íslandsálag fyrir fjármagn og það er sameiginlegt verkefni okkar allra, bankanna, fjárfesta og stjórnvalda og að vinna saman að því að koma lánakjörum okkar í eðlilegra og meira viðunandi horf."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK