Hagnaður samstæðu Sjóvár nam 4 milljörðum króna á árinu 2007 samanborið við 11 milljarða árið áður samkvæmt því sem fram kemur ífréttatilkynningu frá fyrirtækinu . Afkoma af tryggingastarfsemi Sjóvá batnaði umtalsvert á árinu og var samsett hlutfall tryggingasamstæðunnar ríflega 104% miðað við 115% árið áður.
Fréttatilkynning fyrirtækisins fylgir í heild sinni hér á eftir.
Árið 2007 einkenndist af umbótum í rekstri og nýjungum í þjónustu Sjóvá sem efla munu félagið í trygginga- og forvarnastarfsemi hérlendis.
Afkoma af tryggingastarfsemi Sjóvá batnaði umtalsvert á árinu og var samsett hlutfall tryggingasamstæðunnar ríflega 104% en var 115% árið áður. Tjóna- og rekstrarkostnaður var þannig 4% hærri en iðgjöld á árinu 2007 en var 15% hærri árið 2006.Árið 2005 var samsett hlutfall félagsins 122% svo umtalsverð umskipti hafa orðið á tryggingastarfseminni á síðustu misserum. Ástæður þessa viðsnúnings í tryggingastarfsemi félagins má m.a. rekja til verulegrar hagræðingar í rekstrinum en rekstrarkostnaður hefur lækkað umtalsvert á síðastliðnum árum.
Iðgjöld félagsins jukust um 11% árið 2007. Vátryggingaskuld félagsins hækkaði um 3% á árinu og nam í árslok 23,4 milljörðum króna.Í takt við aðstæður á fjármagnsmörkuðum þá drógust tekjur af fjárfestingarstarfsemi saman á árinu miðað við árið áður en afkoma var þó vel ásættanleg.
Hagnaður samstæðu Sjóvár árið 2007 nam 4 milljörðum króna samanborið við 11 milljarða árið áður.
Um mitt ár voru kynnt ný markmið og sýn fyrir félagið og var Sjóvá skilgreint sem trygginga- og forvarnafélag. Þá setti félagið fram nýja þjónustustefnu sem hefur að markmiði að auka hraða og gæði þjónustu.
Árið 2007 var fyrsta heila starfsár Sjóvár-Forvarnahússins sem er dótturfélag Sjóvár og hefur að markmiði að efla forvarnir fyrirtækja og einstaklinga. Árangur í starfi Forvarnahússins hefur verið mikill og tölur sýna að þau verkefni sem Forvarnahúsið hefur einblínt á hafa skilað verulega færri tjónum og aukinni vitundarvakningu um afleiðingar slysa og forvarnir gegn þeim.
Lögð hefur verið áhersla á eflingu mannauðs félagsins og félagið var valið hástökkvari ársins í íslensku viðskiptalífi árið 2007 í könnun VR sem mældi starfsánægju starfsmanna á milli áranna 2006 og 2007.