Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs og FL Group hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að misskilningur sé að hann persónulega telji bankana á Íslandi í slæmum málum. Hann segir skuldaálag á íslenskum bönkum hins vegar of hátt og að nauðsynlegt sé að horfa á það sem ógn við stöðugleika á landinu að álagið haldist hátt til lengri tíma.
Vegna orða minna um hátt skuldaálag bankanna í Markaðnum sl föstudag hefur gætt þess misskilnings að ég persónulega telji bankana í slæmum málum sem er rangt.
Hið rétta er að miðað við það skuldaálag sem krafist er af íslenskum bönkum virðist endurspeglast sú skoðun erlendra fjármálastofnana að staða þeirra sé slæm. Það mat er fjarri lagi og skuldaálagið er alltof hátt miðað við raunverulega stöðu þeirra og ósanngjarnt.
Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að horfa á það sem ógn við stöðugleika á Íslandi að skuldaálag banka haldist hátt til lengri tíma og því nauðsynlegt að stjórnvöld og atvinnulífið taki höndum saman til að breyta viðhorfi til Íslands erlendis. Þá er rétt að undirstrika þá skoðun mína að skoða eigi aðild að ESB til viðhalda þeim blóma sem hefur verið í íslensku atvinnulífi um langt skeið.
Þetta tel ég rétt og nauðsynlegt að árétta og koma á framfæri.