Verð á hráolíu fór í kvöld upp í 101,27 dali á markaði í New York og hefur aldrei verið hærra í dölum talið. Verðið hefur hækkað mikið síðustu daga og er það rakið til þess, að miðlarar óttast að OPEC-ríkin ákveði á næstunni að draga úr olíuframleiðslu.
Olíumálaráðherrar OPEC-ríkjanna munu koma saman í Vínarborg í byrjun mars. Sérfræðingar búast við því, að þar verði ákveðið að draga úr framleiðslunni í ljósi þess að brátt fer að vora og þá dregur úr eftirspurn eftir húshitunarolíu. Þá er talið, að OPEC-ríkin meti það svo, að minnkandi umsvif í bandaríska hagkerfinu muni einnig draga úr eftirspurn.
Miðlarar hafa einnig nokkrar áhyggjur af deilu milli olíufélagsins ExxonMobil og ríkisstjórnar Venesúela.