Rekstrarkostnaður: Helmingur af fjárlögum

Rekstrarkostnaður FL Group, Exista, Kaupþings, Landsbanka, Glitnis og Straums-Burðaráss í fyrra var tæplega helmingur af áætluðum rekstrarkostnaði íslenska ríkisins á árinu 2008 samkvæmt fjárlögum. Samtals kostaði tæpa 209 milljarða króna að reka félögin sex, en hjá þeim störfuðu að meðaltali 11.564 manns á árinu. Rekstrarkostnaður á hvern þessara starfsmanna var því um 18 milljónir krónur á síðasta ári.

Á fjárlögum 2008 er áætlað að það kosti 434 milljarða króna að reka íslenska ríkið á þessu ári. Á Íslandi búa rúmlega 313 þúsund manns. Það þýðir að kostnaður við rekstur íslenska ríkisins á hvern íbúa er um 1,4 milljónir króna á árinu. Opinber rekstrarkostnaður á hvern íbúa landsins er því sjö prósent af rekstrarkostnaði á hvern starfsmann ofangreindra fyrirtækja.

Rekstrarkostnaður FL Group var 6,153 milljarðar króna á síðasta ári. Samkvæmt ársreikningi voru starfsmenn þá að meðaltali 78 og því var rekstrarkostnaður á hvern þeirra tæpar 79 milljónir króna á ári.

Meðaltal starfsmanna félagsins tekur mið af því að starfsmenn Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) bættust inn í samstæðureikning FL síðustu þrjá mánuði ársins, en þeir eru um 190 talsins. TM hefur enn ekki skilað ársreikningi og því liggur ekki fyrir hver hlutdeild þeirra er í rekstrarkostnaðartölum FL Group. Starfsmenn fjárfestingarfélagsins sjálfs voru þegar mest lét 42 á síðasta ári, en hafði fækkað í 37 í árslok. FL Group rak skrifstofu í þremur borgum í fyrra: Reykjavík, London og Kaupmannahöfn. Þeirri síðastnefndu var lokað í desember.

Kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda hjá FL var samtals 2.510 milljónir króna og þar af var launakostnaður æðstu stjórnenda og stjórnarmanna 391,3 milljónir króna, eða 15,6 prósent af heildarrekstrarkostnaði. Þyngst vega greiðslur til Hannesar Smárasonar, fráfarandi forstjóra, sem hlaut 139,5 milljónir króna í laun og bónusgreiðslur. Þess utan fékk hann 90 milljóna króna starfslokagreiðslu þegar honum var sagt upp í desember. Undir stjórn Hannesar tapaði félagið tæplega 80 milljörðum króna í fyrra. Samningurinn við Hannes var gerður árið 2005 þegar stjórnarformaður var náinn samstarfsmaður núverandi stjórnarformanns.

Stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í ársreikningi FL Group er liður sem heitir „annar kostnaður“. Hann hljóðar upp á tæpa 3,5 milljarða króna og er tæp 60 prósent af heildarrekstrarkostnaði félagsins. Þegar 24 stundir kölluðu eftir nánari sundurliðun á þessum lið fengust þau svör að þar undir væri húsnæðiskostnaður, tölvu- og tæknimál, styrktarmálefni, markaðs- og kynningarkostnaður (meðal annars vegna ráðstefna), ferðalög starfsmanna, aðkeypt sérfræðiaðstoð og kostnaður vegna upplýsingaveitna. Ef reiknaður er út kostnaður á hvern starfsmann undir þessum lið er niðurstaðan tæpar 45 milljónir króna.

Þau félög sem helst eru sambærileg við FL Group í íslensku Kauphöllinni eru Exista og Atorka. Atorka mun ekki birta rekstrarafkomu sína fyrir árið 2007 fyrr en 22. febrúar og því ekki hægt að taka það félag hér til umfjöllunar.

Exista skilgreinir sig sem fjármálaþjónustufyrirtæki. Í samstöðureikningi móðurfélagsins eru fjárfestingarfélagið Exista, VÍS, Lífís, Lýsing og Öryggismiðstöðin. Rekstrarkostnaður Exista var 6,4 milljarðar króna, eða um 250 milljónum hærri en hjá FL Group. Starfsmenn þess voru hins vegar margfalt fleiri, eða 433 að meðaltali á síðasta ári. Rekstrarkostnaður á hvern starfsmann var því tæpar 15 milljónir á ári, eða 1,2 milljónir króna á mánuði. Hjá FL Group var rekstrarkostnaður á hvern starfsmann 431 prósenti hærri en á hvern starfsmann Exista.

Fjárfestingarbankinn Straumur-Burðarás er það fjármálafyrirtæki sem er með næsthæstan rekstrarkostnað á hvern starfsmann hérlendis. Sá kostnaður var 35,6 milljónir króna á hvern þeirra á ári, eða tæpar þrjár milljónir á mánuði. Bankinn lækkaði þann kostnað verulega frá árinu 2006 þegar 69 manns störfuðu hjá bankanum. Þá var árlegur rekstrarkostnaður 62,7 milljónir á hvern starfsmann.

Hjá Straumi störfuðu 328 manns að meðaltali á síðasta ári, eða fjórfalt fleiri en árið áður. Bankinn er með skrifstofur í tíu löndum víðsvegar um Evrópu, sú stærsta í Helsinki og næststærsta á Íslandi.

Af hinum þremur stóru viðskiptabönkum er Kaupþing stærst. Bankinn er raunar stærsta skráða fyrirtæki á Íslandi og starfar í alls þrettán löndum. Rekstrarkostnaður hans á síðasta ári var tæpir 79 milljarðar króna, sem er svipuð upphæð og FL Group tapaði á árinu 2007 ef bakfærðir skattar eru teknir með í reikninginn. Til samanburðar má geta þess að rekstur fjárfrekasta ráðuneytis landsins, heilbrigðisráðuneytisins, er áætlaður 101 milljarður króna á þessu ári.

Starfsmenn Kaupþings voru 3.109 að meðaltali á síðasta ári og fjölgaði um tæpan fjórðung frá árinu áður. Rekstrarkostnaðurinn jókst að sama skapi um rúmlega 30 prósent og var 25,3 milljónir króna á hvern starfsmann.

Hjá Landsbankanum jókst rekstrarkostnaður um 49 prósent, fór úr 38,6 milljörðum króna í 57 milljarða króna. Til samanburðar er áætlað að ríkissjóður greiði um 50 milljarða króna til að kosta menntamálaráðuneytið og allar þær stofnanir sem heyra undir það á árinu 2008. Þeirra á meðal eru allir framhalds- og háskólar landsins, rekstur Ríkissjónvarpsins og annarra menningartengdra stofnana. Starfsmönnum bankans fjölgaði að sama skapi um fjórðung og voru orðnir 2.640 í árslok. Rekstrarkostnaður á hvern þeirra var tæpar 22 milljónir króna á ársgrundvelli. Rekstrarkostnaður Glitnis jókst um 76,3 prósent á milli ára og var rúmir 48 milljarðar króna. Starfsmönnum bankans fjölgaði einnig töluvert og voru að meðaltali tæplega 2000 á síðasta ári. Rekstrarkostnaður þeirra var um 24,3 milljónir króna á ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK