Lárus Welding, forstjóri Glitnis, sagði á aðalfundi Glitnis, að hart væri sótt að íslensku bönkunum um þessar mundir og lykilatriði, að menn væru samstíga í að rétta sinn hlut. Sagði Lárus, að skuldatryggingarálag bankanna, sem hann nefndi raunar Íslandsálag, væri í hæstu hæðum og langt fyrir ofan það álag sem aðrir bankar þurftu að sæta.
Lárus sagði, að skuldatryggingarálag bankanna væri allt of hátt og áhættan ofmetin. Benti hann á, að íslenskir bankar stæðust allir álagspróf Fjármálaeftirlitslins. Þá hefðu þeir haldið sig frá undirmálslánum á Bandaríkjamarkaði, ólíkt ýmsum öðrum evrópskum bönkum, en hvorki notið sannmælis né góðs af þeirri varkárni.
Sagði Lárus það vera sameiginlegt verkefni að koma lánamálum Íslendinga í viðunandi horf.