Fátt annað er í stöðunni en að stöðva loðnuveiðar að mati Friðriks Arngrímssonar framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna en hann segir útlitið mjög dökkt í greininni.
Milljarða krónu tekjutap vofir yfir fyrirtækjum í veiðum og vinnslu á loðnu, verði loðnuveiðar stöðvaðar í dag, en það verður gert vegna þess að ekki hefur tekist að mæla nægilega mikið af loðnu til að standa undir þeirri veiðireglu Hafrannsóknarstofnunar að tryggja nægilega hrygningu nú í vetur. Þó ber að taka það fram að mikið tap vofir einnig yfir verði veiðum haldið áfram þar sem loðnuafli hefur verið langt undir væntingum það sem af er þessari vertíð.
Loðnan er talin vera um tveimur vikum síðar á ferðinni nú en venjulega, en hún er óútreiknanleg og því ekki loku fyrir það skotið að hún skili sér.
Stíft var fundað um málið hjá LÍÚ í morgun og segir Friðrik að gangi þetta eftir geti það skipt sköpum í rekstri margra sjávarútvegsfyrirtækja. Að sögn Friðriks hefur meðalvertíð undanfarinna ára skilað um 12 milljörðum króna í tekjur, en fari allt á versta veg sé útlit fyrir að tekjutap sjávarútvegsfyrirtæka verði um 7-8 milljarðar.
Aflabresturinn mun einnig hafa áhrif á afkomu sjómanna og starfsmenn vinnslufyrirtækja í landi.