Aðalfundur Glitnis samþykkti í dag að þóknun stjórnarformanns bankans verði 550 þúsund krónur á mánuði og varaformanns 375 þúsund krónur. Þá fá aðrir stjórnarmenn 250 þúsund krónur á mánuði í þóknun fyrir stjórnarsetu og varamenn fá 75 þúsund krónur fyrir hvern fund.
Fyrir fundinum lá tillaga frá stjórn Glitnis um að þóknun stjórnarformanns yrði 1050 þúsund krónur á mánuði, þóknun varaformanns verði 700 þúsund og þóknun stjórnarmanna 350 þúsund á mánuði. Þá lagði stjórnin til að varamenn fengju 100 þúsund krónur fyrir hvern fund sem þeir sitja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, sem kjörinn var í stjórn bankans á aðalfundinum og tekur væntanlega við stjórnarformennsku í bankanum, lagði hins vegar til breytingartillögu sem gerði ráð fyrir að þóknun stjórnarmanna yrði lægri og var sú tillaga samþykkt samhljóða.