„Ég fer frá Sterling með engri eftirsjá,“ segir Almar Örn Hilmarsson sem lætur nú af störfum sem forstjóri flugfélagsins Sterling. Hann segir í samtali við mbl.is, að það hafi verið kominn tími á að nýr maður tæki við stjórninni til að vinna að næstu verkefnum fyrirtækisins.
„Ég hef ávallt litið á Sterling sem þriggja fasa verkefni. Eitt var að sameina þessi félög [Maersk Air og Sterling] og stöðva tapið. Og hins vegar að endurskipuleggja innviðina. Svo væri þriðji fasinn að byggja ofan á það. Seinni part síðasta árs fór ég að velta því fyrir mér að við værum að komast inn í þennan þriðja fasa og þá fór ég aðeins að horfa á sjálfan mig í speglinum og spyrja hvort ég væri endilega rétti maðurinn til að leiða þann fasa,“ segir Almar.
Hann segir að mikill tími og orka hafi farið þætti eins og krísustjórnun, og aðra þætti sem hafi reynt á hann sem stjórnanda. „Ég taldi mig hafa misst aðeins sýnina á það hvernig ætti að komast út úr því hlutverki. Það er oft erfitt að vera læknir og fara svo í endurhæfinguna og uppbygginguna eftir það,“ segir Almar. Þá bendir hann á að hann hafi ekki verið reiðubúinn að skuldbinda sig til næstu þriggja til fimm ára til að vinna að uppbyggingunni.
Almar segist hafa rætt þetta við stjórnarformann fyrirtækisins og þeir hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu um að nýr maður tæki við.
„Ég styð auðvitað félagið áfram, stend með þeim og hjálpa til við að koma nýjum manni inn í starfið. Svo fer maður bara að líta í kringum sig,“ segir og hann og bætir við: „Ég ætla bara fara að vera Almar Hilmarsson. Það er fyrst og fremst markmiðið. Ég hef ekki tekið frí síðan 2004 og ætla að byrja á því að taka tveggja til þriggja vikna frí og anda aðeins.“