Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segist geta tekið undir með þingmönnunum um að draga þurfi úr áherslu Seðlabankans á að viðhalda verðbólgumarkmiðunum. Það sé rétt sem fram hafi komið í skýrslu Mishkins að við ákveðnar aðstæður eigi að horfa meira til fjármálastöðugleika í víðara samhengi heldur en að horfa aðeins þröngt á verðbólgumarkmið.
Óháð þessu, og án þess að þurfa að víkja frá því markmiði, þá séu að skapast aðstæður fyrir lækkun stýrivaxta hjá Seðlabankanum. Ekki aðeins hafi þorskkvótinn verið skorinn niður og þá sé verið að hætta loðnuveiðum. Til viðbótar sé umhverfið á alþjóðamörkuðum erfitt fyrir bankana, og þeir hafi því orðið að hægja á starfsemi sinni og lánveitingum.
Sigurjón segir þó Illuga Gunnarsson og Bjarna Benediktsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ekki þurfa að segja sér hvernig ástandið er á mörkuðum en þingmennirnir birtu í gær grein um vanda bankakerfisins í Morgunblaðinu í gær.
„Mestu skiptir að óvenjulegar aðstæður eru í heiminum í dag, sem allir þurfa að taka tillit til og vinna sig í gegnum. Það gerist með því að reka bankana eins varlega og mögulegt er, að lána sem allra minnst, halda í sitt lausafé og reyna að auka það með einhverjum hætti. Íslenskir bankar eru hlutfallslega orðnir mjög stórir miðað við þjóðfélagið sem við komum frá. Styrkja þarf þá ímynd á erlendum vettvangi að við séum sterkir og hægt er að gera það á ýmsa vegu,“ segir Sigurjón.
Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segir mikilvægt að undirstrika að staða íslensku bankanna sé sterk. Hins vegar sé það rétt að fjármögnunarkostnaður sé hár um þessar mundir og muni hafa áhrif á vöxt þeirra ef engin breyting verði þar á.
„Þessi grein þingmannanna er mjög gott innlegg í umræðuna og þar er að finna ýmsar góðar hugmyndir. Greinin endurspeglar að mínu mati ákveðna framsýni og skilning á því að það er nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld að búa fjármálafyrirtækjum gott rekstrarumhverfi ef þau eiga áfram að vera einn af drifkröftum efnahagslífsins. Ég styð sérstaklega þær hugmyndir sem nefndar voru um endurskoðun hlutverks Íbúðarlánasjóðs, frekari skattalækkanir og stofnun rannsóknarmiðstöðvar í efnahags- og fjármálafræðum. Ég tel brýnt að um þessi mál myndist sem virkust og breiðust umræða og ég er bjartsýnn á að viðskiptalífið og stjórnvöld finni í sameiningu leiðir til lausna í þessum málum á næstu mánuðum,“ segir Lárus.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir þingmennina koma fram með ágætis hugmyndir. Stjórnvöld geti gert töluvert til að bregðast við núverandi aðstæðum á markaði.
„Við höfum bent á það áður að stjórnvöld reka tvo banka í landinu, annars vegar seðlabanka og hins vegar íbúðabanka, og það væri eðlilegt fyrsta skref að þessir tveir bankar myndu stíga í takt. Að okkar mati gengur það ekki að annar bankinn setji 14% grunnvexti í kerfið og hinn bankinn reyni að taka af okkur viðskiptavini alla daga með því að lána þeim út á 5,5% vöxtum. Þetta er nú ekki flóknara en þetta. Svo skilja menn ekkert í því að ójafnvægi sé í kerfinu, vaxtahækkanir hafi ekki áhrif og verðbólga fari af stað,“ segir Hreiðar Már.