Eftir tímabil mikils uppgangs, og á köflum ofhitnunar, í íslensku hagkerfi er nú útlit fyrir að fremur hratt dragi úr umsvifum í efnahagslífinu. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá greiningar Glitnis.
„Kaldir sviptivindar að utan leika um hagkerfið í kjölfar alþjóðlegrar fjármálakreppu sem hófst að áliðnu sumri 2007 og ætlar að reynast æði langvinn. Áhrif þessa á íslenskt efnahagslíf eru í þá veru að draga hraðar úr umsvifum heimila og atvinnulífs en áður var útlit fyrir, þótt fyrirséð hafi verið að lok stóriðjuframkvæmda og hækkandi vextir til lengri jafnt sem skemmri tíma myndu draga úr innlendri eftirspurn eftir mikinn vöxt fjárfestingar og einkaneyslu um miðjan áratuginn."
Í nýrri þjóðhagsspá Glitnis er gert ráð fyrir að landsframleiðsla verði óbreytt að raungildi á þessu ári miðað við nýliðið ár. Þar vegast á allsnarpur samdráttur í innlendri eftirspurn annars vegar, og verulegur bati á utanríkisviðskiptum hins vegar.
„Lok umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda þýða að fjárfestingarstigið í hagkerfinu verður mun lægra í ár en verið hefur undanfarin ár, og við bætist að okkar mati samdráttur í fjárfestingu annarra atvinnuvega sem og minni gangur í íbúðabyggingum. Að auki teljum við að einkaneysla muni dragast saman eftir hraðan vöxt undangengin fimm ár.
Stóraukin framleiðslugeta álvera, auk hagstæðara gengis krónu fyrir útflutningsatvinnuvegi, mun á hinn bóginn skila þjóðarbúinu talsvert meiri útflutningstekjum á þessu ári en hinu síðasta, þótt kvótaskerðing vegi þar nokkuð á móti. Einnig teljum við að innflutningur fjárfestingarvara muni dragast verulega saman og innflutningur bifreiða og varanlegra neysluvara minnka nokkuð. Árið markast þannig af nokkuð örri þróun í átt til bæði innra og ytra jafnvægis í hagkerfinu eftir ójafnvægi undanfarinna missera," segir í þjóðhagsspá Greiningar Glitnis.