Grein Bjarna og Illuga vel tekið

Árvakur/Kristinn

 Grein tveggja þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins, þeirra Ill­uga Gunn­ars­son­ar og Bjarna Bene­dikts­son­ar, um vanda banka­kerf­is­ins í Morg­un­blaðinu í gær mæl­ist yf­ir­leitt vel fyr­ir meðal for­ystu­manna í stjórn­mála­flokk­un­um, sem rætt var við í gær. Ekki eru þó viðmæl­end­ur blaðsins til­bún­ir að taka und­ir all­ar til­lög­ur um aðgerðir sem Bjarni og Ill­ugi setja fram.

Björg­vin G. Sig­urðsson viðskiptaráðherra seg­ir að nán­ast allt sem Ill­ugi og Bjarni nefna í grein sinni sé nú þegar á borði rík­is­stjórn­ar­inn­ar, annaðhvort til skoðunar eða í úr­vinnslu. Bend­ir Björg­vin á að í gær hafi t.d. verið á dag­skrá þings­ins önn­ur umræða um frum­varp viðskiptaráðherra um sér­tryggð skulda­bréf, sem komi bönk­un­um til góða. „Það er einnig verið að vinna frum­varp um Íbúðalána­sjóð og fyr­ir nokkr­um vik­um hófst form­legt sam­ráð á milli rík­is­stjórn­ar­inn­ar og bank­anna,“ seg­ir viðskiptaráðherra. „Grein þeirra er ágæt sam­an­tekt á þeim aðgerðum sem rík­is­stjórn­in er að vinna að nú þegar fyr­ir utan til­lögu þeirra um pen­inga­mála­stefn­una. Ég tel að það sé ekki til­efni til að víkja frá pen­inga­mála­stefn­unni við þess­ar aðstæður. Ég er þeirr­ar skoðunar að það væri óvar­legt að hrapa að slíkri niður­stöðu,“ seg­ir viðskiptaráðherra.

Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, formaður VG, seg­ir að Ill­ugi og Bjarni fjalli í grein sinni um svipaðar hug­mynd­ir og hann hafi sjálf­ur sett fram um langt skeið, m.a. um nauðsyn þess að styrkja Seðlabank­ann og gjald­eyr­is­vara­sjóð bank­ans og að efla Fjár­mála­eft­ir­litið. „Allt þetta hef ég lagt til á und­an­förn­um tveim­ur til þrem­ur árum. Þetta kem­ur mér því ekki spánskt fyr­ir sjón­ir og í sjálfu sér líst mér ágæt­lega á það.“

„Ég tek und­ir með þess­um þing­mönn­um og hef haldið uppi sams kon­ar gagn­rýni á rík­is­stjórn­ina síðustu mánuði að mik­il­vægt er að mynda öfl­ugt sam­starf, nokk­urs kon­ar þjóðarsátt rík­is­stjórn­ar, at­vinnu­lífs og banka­kerf­is­ins um að fara yfir þá al­var­legu stöðu, sem blas­ir við okk­ur. Það á bæði við um hina háu og stöðugu verðbólgu sem hér rík­ir og ekki síður vegna þeirra vanda­mála sem sækja að okk­ur utan frá og þeirra erfiðleika sem bank­arn­ir eiga við að stríða á alþjóðamörkuðum,“ seg­ir Guðni Ágústs­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

„Ég tel að þarna séu tveir af þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins vaknaðir. Ég er ekki sam­mála þeim um að Íbúðalána­sjóður eigi að verða kjöt­biti og fóður í kjaft­inn á bönk­un­um við þess­ar aðstæður. Ég er al­ger­lega á móti því. Það er mjög mik­il­vægt fyr­ir fólkið í land­inu að stöðu Íbúðalána­sjóðs verði ekki raskað í þess­ari óvissu sem blas­ir við banka­kerf­inu,“ seg­ir Guðni enn­frem­ur. Hann seg­ist fagna því að bank­arn­ir virðist vera að vakna upp af óráðsíu síðustu ára. Hæst launuðu stjórn­end­ur þeirra séu farn­ir að lækka kaup sitt. „Þessi háu laun og starfs­loka­samn­ing­ar voru móðgun við Íslend­inga,“ seg­ir hann.

„Mik­il­væg­ast finnst mér samt sem áður að rík­is­stjórn­in vakni upp og að rík­is­stjórn­in, Seðlabank­inn og at­vinnu­lífið vinni sam­an að þess­um mál­um. Ég tel að það sé mikið í húfi. Líf­eyr­is­sjóðir al­menn­ings eiga mikið und­ir. Þess­ir menn hafa ekki bara verið að spila með sína pen­inga. Þeir hafa verið að spila með pen­inga al­menn­ings út um all­an heim. Það hvíla mikl­ar skyld­ur á þeim og það eru mikl­ar skyld­ur á rík­is­stjórn­inni og á okk­ur öll­um að reyna að róa þetta niður og ná ein­hverri skyn­sam­legri lend­ingu. Mér finnst því að þess­ir tveir þing­menn séu að tala rétt eins og við fram­sókn­ar­menn höf­um talað allt frá fæðingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka