Grein Bjarna og Illuga vel tekið

Árvakur/Kristinn

 Grein tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þeirra Illuga Gunnarssonar og Bjarna Benediktssonar, um vanda bankakerfisins í Morgunblaðinu í gær mælist yfirleitt vel fyrir meðal forystumanna í stjórnmálaflokkunum, sem rætt var við í gær. Ekki eru þó viðmælendur blaðsins tilbúnir að taka undir allar tillögur um aðgerðir sem Bjarni og Illugi setja fram.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að nánast allt sem Illugi og Bjarni nefna í grein sinni sé nú þegar á borði ríkisstjórnarinnar, annaðhvort til skoðunar eða í úrvinnslu. Bendir Björgvin á að í gær hafi t.d. verið á dagskrá þingsins önnur umræða um frumvarp viðskiptaráðherra um sértryggð skuldabréf, sem komi bönkunum til góða. „Það er einnig verið að vinna frumvarp um Íbúðalánasjóð og fyrir nokkrum vikum hófst formlegt samráð á milli ríkisstjórnarinnar og bankanna,“ segir viðskiptaráðherra. „Grein þeirra er ágæt samantekt á þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að vinna að nú þegar fyrir utan tillögu þeirra um peningamálastefnuna. Ég tel að það sé ekki tilefni til að víkja frá peningamálastefnunni við þessar aðstæður. Ég er þeirrar skoðunar að það væri óvarlegt að hrapa að slíkri niðurstöðu,“ segir viðskiptaráðherra.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir að Illugi og Bjarni fjalli í grein sinni um svipaðar hugmyndir og hann hafi sjálfur sett fram um langt skeið, m.a. um nauðsyn þess að styrkja Seðlabankann og gjaldeyrisvarasjóð bankans og að efla Fjármálaeftirlitið. „Allt þetta hef ég lagt til á undanförnum tveimur til þremur árum. Þetta kemur mér því ekki spánskt fyrir sjónir og í sjálfu sér líst mér ágætlega á það.“

„Ég tek undir með þessum þingmönnum og hef haldið uppi sams konar gagnrýni á ríkisstjórnina síðustu mánuði að mikilvægt er að mynda öflugt samstarf, nokkurs konar þjóðarsátt ríkisstjórnar, atvinnulífs og bankakerfisins um að fara yfir þá alvarlegu stöðu, sem blasir við okkur. Það á bæði við um hina háu og stöðugu verðbólgu sem hér ríkir og ekki síður vegna þeirra vandamála sem sækja að okkur utan frá og þeirra erfiðleika sem bankarnir eiga við að stríða á alþjóðamörkuðum,“ segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins.

„Ég tel að þarna séu tveir af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins vaknaðir. Ég er ekki sammála þeim um að Íbúðalánasjóður eigi að verða kjötbiti og fóður í kjaftinn á bönkunum við þessar aðstæður. Ég er algerlega á móti því. Það er mjög mikilvægt fyrir fólkið í landinu að stöðu Íbúðalánasjóðs verði ekki raskað í þessari óvissu sem blasir við bankakerfinu,“ segir Guðni ennfremur. Hann segist fagna því að bankarnir virðist vera að vakna upp af óráðsíu síðustu ára. Hæst launuðu stjórnendur þeirra séu farnir að lækka kaup sitt. „Þessi háu laun og starfslokasamningar voru móðgun við Íslendinga,“ segir hann.

„Mikilvægast finnst mér samt sem áður að ríkisstjórnin vakni upp og að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og atvinnulífið vinni saman að þessum málum. Ég tel að það sé mikið í húfi. Lífeyrissjóðir almennings eiga mikið undir. Þessir menn hafa ekki bara verið að spila með sína peninga. Þeir hafa verið að spila með peninga almennings út um allan heim. Það hvíla miklar skyldur á þeim og það eru miklar skyldur á ríkisstjórninni og á okkur öllum að reyna að róa þetta niður og ná einhverri skynsamlegri lendingu. Mér finnst því að þessir tveir þingmenn séu að tala rétt eins og við framsóknarmenn höfum talað allt frá fæðingu ríkisstjórnarinnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK