Þrátt fyrir að íslensk fyrirtæki standi traustum fótum hafa aðstæður erlendis leitt til lækkana á íslenskum hlutabréfamörkuðum sem eiga sér fá eða engin fordæmi. Við slíkar aðstæður er erfitt fyrir hvaða félag sem er að taka sín fyrstu skref á hlutabréfamarkaði og hefur SPRON að nokkru leyti goldið þess. Þetta kom fram í máli Hildar Petersen, fráfarandi stjórnarformanns SPRON, á aðalfundi nú síðdegis.
Að sögn Hildar var árið 2007 tímamótaár í þeim skilningi að margra ára uppgangi í íslensku efnahagslífi virtist lokið og framundan tími aðlögunar. Mikið umrót á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafði bein áhrif á íslenskt efnhagslíf og undirstrikaði með afgerandi hætti hvað felst í því að vera hluti af hinu alþjóðlega hagkerfi.
„En þótt við blasi að aðstæður séu nokkuð erfiðari en ráð var fyrir gert í upphafi þá þýðir það einfaldlega að við þurfum að leggja okkur enn harðar fram við að ná árangri fyrir SPRON og hluthafa þess."
Hildur gerði launakjör stjórnenda að umfjöllunarefni í ræðu sinni.
„Töluverð umræða hefur skapast um launakjör stjórnenda í fjármálalfyrirtækjum að undanförnu og hafa kaupréttarsamningar og launakjör forstjóra borið þar hæst. Þeir kaupréttarsamningar sem gerðir voru hjá SPRON undir lok síðasta árs náðu til allra starfsmanna SPRON og eru mjög hóflegir í samanburði við önnur fjármálafyrirtæki.
Einnig hefur nafn Guðmundar Haukssonar borið á góma í tenglsum við há laun forstjóra og vil ég því upplýsa hér að föst laun Guðmundar hjá SPRON eru 2,7 millj á mánuði. Auk þess fær hann bónus tengda afkomu. 2006 var gott afkomuár og naut Guðmundur þess og kemur sú tala fram í ársskýslunni sem þið hafið í höndum. Hins vegar fær hann 1/3 hluta þeirrar fjárhæðar fyrir síðasta ár, enda afkoman lakari. Mun það endurspeglast í uppgjöri næsta árs. Það er því röng aðferð að tengja uppgefin laun á síðasta ári við afkomu 2007, eins og gert hefur verið," sagði Hildur á aðalfundi SPRON.
Hildur segist vera ákáfur talsmaður þess að fyrirtæki sýni jafnrétti í verki og fjölgi m.a. konum í stjórnum sínum og hef því haft mikinn áhuga á því að SPRON væri í fararbroddi fjármálafyrirtækja á þeirri braut.
„Hér er ekki eingöngu um jafnréttismál að ræða heldur líka hreina viðskiptahagsmuni, því konur og upplýstir karlmenn beina viðskiptum sínum í auknu mæli til þeirra fyrirtækja sem sýna jafnrétti í verki.
Þegar ljóst var að tvær af reyndustu konum í íslensku viðskiptalífi þær Margrét Guðmundsdóttir forstjóri Icepharma og Rannveig Rist forstjóri Alcan voru tilbúnar að gefa kost á sér fór ég að hugsa minn gang og komst að þeirri niðurstöðu að ég væri kannski ekki ómissandi.
Þegar ég svo horfði til þess að núverandi stjórn sem var kjörin á hluthafafundi 30.desember 2004 hefur náð því markmiði sem hún setti sér í upphafi að breyta SPRON í hlutafélag og skrá það í kauphöllina, og að jafnréttis væri gætt í stjórninni. Þá var mér hugsað til þess stóra hluta starfsævi minnar sem ég hef varið í störf fyrir SPRON og taldi að ég gæti gengið stollt frá þessu starfi. Þessi jákvæða endurnýjun í stjórninni hefði þó ekki verið möguleg nema vegna þess að Gunnar Þór Gíslason deildi þeirri skoðun með mér að regluleg útskipti í stjórnum fyrirtækja á hlutabréfamarkaði og jafnréttissjónarmið væru af hinu góða í stjórnum fyrirtækja.
Fyrir 2 árum fékk SPRON fyrst fjámálafyrirtækja verðlaun Jafnréttisráðs. Í dag er enn einum áfanga náð í þróun SPRON með því að vera eina fyrirtækið í kauphöllinni þar sem konur eru 40% af meðlimum stjórnar, sem sýnir í hnotskurn að ef vilji og framsýni er fyrir hendi eru lög um þessi mál óþörf.
Það er ekki síst mikilvægt í þeirri stöðu sem fjármálafyrirtæki eru í í dag að mynda svigrúm fyrir konur inn í stjórnir enda þeirra sjónarmið oftar talin tengjast ráðdeild og hagsýni sem eru kannski ekki mjög spennandi eiginleikar í uppgangi en koma sannarlega að góðum notum í niðursveiflu," sagði Hildur Petersen fráfarandi stjórnarformaður SPRON.