Úrvalsvísitalan lækkaði talsvert í febrúar eða um 10,9% frá lokagildi janúar og hefur vísitalan lækkað fjóra mánuði í röð. Stendur vísitalan í 4.887 stigum. Það sem af er ári nemur lækkun Úrvalsvísitölunnar 22,7% en hlutabréf hafa almennt stefnt niður á við síðastliðna tvo mánuði.
Í Hálf fimm fréttum Kaupþings kemur fram að DAX í Þýskalandi hefur lækkað um 16,5% og er Nasdaq í Bandaríkjunum skammt undan með tæplega 16% lækkun á bakinu. Nokkur viðsnúningur var þó á allmörgum mörkuðum í febrúar og má helst nefna OTOB í Rússlandi og OBX í Noregi en báðir markaðirnir taka mikið tillit til gengi olíufyrirtækja.
Hlutabréfavísitölur þar sem fjármálafyrirtæki eru fyrirferðarmikil héldu þó áfram að lækka í febrúar og er Úrvalsvísitalan talandi dæmi um slíka vísitölu, samkvæmt Hálf fimm fréttum.