Mikil ásókn hefur verið í Kaupþing Edge-innlánsreikningana í Belgíu undanfarna daga. Fyrir tveimur vikum sendi Kaupþing banki út fréttatilkynningu um að bankinn hygðist bjóða Belgum umrædda reikninga og síðan þá hafa 2.100 Belgar bæst á lista viðskiptavina Kaupþings.
„Formlega markaðsherferð er ekki hafin, en við gerum ráð fyrir að byrja að auglýsa reikningana eftir viku,“ segir Magnús Guðmundsson, bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg.
Magnús segir að umfjöllun um reikningana hafi hafist í Belgíu er þarlent dagblað birti lista yfir hverjir væru að bjóða upp á hagstæðustu kjörin á innlánsreikningum. Eftir það hafi blaðamenn farið að spyrjast fyrir um fyrirætlanir Kaupþings og viðskiptavinirnir nýju fylgt í kjölfarið.
Sú staðreynd að Kaupþing hefur enga viðskiptavini fyrir í Belgíu og rekur þar engin útibú gerir að sögn Magnúsar það að verkum að kostnaður sé í lágmarki og þeir geti því boðið hagstæðari kjör á innlánsreikningum sínum en flestir aðrir bankar.
Í skýrslum Moody's og fleiri aðila um íslensku bankana hafa bankarnir sérstaklega verið gagnrýndir fyrir að þurfa að treysta of mikið á alþjóðlegan fjármálamarkað, og hvattir til að bæta úr því með því að leggja meiri áherslu á innlánsreikninga.
Magnús segir Kaupþing Edge-reikningana einmitt vera hugsaða í því skyni. „Við erum að ná í mikið af innlánum frá mörgum löndum með Kaupþing Edge og þurfum því síður að treysta á alþjóðlega fjármálamarkaði.“