Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir í viðtali við Financial Times að íslensku bankarnir hafi verið ágengir í útþenslunni og kannski sé kominn tími til að þeir athugi sinn gang að því leyti. Með það að leiðarljósi að róa alþjóðlega fjárfesta og slá á þær áhyggjur sem eru uppi um efnahagsástandið á Íslandi. Þetta kemur fram á vef FT.
Geir segir í viðtalinu að hann stefni að því síðar í mánuðinum að kynna fyrir alþjóðlegum fjárfestum stöðu mála á Íslandi en margt fólk skilji ekki hvað sé í gangi hér á landi og það sé eitthvað sem verði að skýra út.
Í greininni er fjallað um lækkun Moody's á lánshæfismatseinkunnum bankanna þriggja í síðustu viku og þann mikla uppgang sem hefur einkennt íslenskt efnahagslíf og bankarnir hafa leitt. Í greininni kemur fram að á síðustu mánuðum hafi bankarnir hægt á meðal annars hafi Kaupþing hætt við yfirtöku á hollenska bankanum NIBC.
Fram kemur að skuldatryggingarálag bankanna hafi hækkað gríðarlega á undanförnum sex mánuðum og segir forsætisráðherra Íslands þetta háa álag algjörlega óréttlætanlegt. Segir hann enga ástæðu til þess að hafa áhyggjur af því að íslensku bankarnir geti ekki borgað, en skuldatryggingarálag mælir hvað það kostar fyrir fjárfesta að kaupa tryggingu gegn því að útgefandi viðkomandi skuldabréfs geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.