Hátt gengi evrunnar er umræðuefni fundar fjármálaráðherra ríkjanna fimmtán sem mynda myntbandalag Evrópu í Brussel í dag. Evran hefur aldrei verið jafn há gagnvart Bandaríkjadal og síðdegis í dag eða 1,5266 dalir, frá stofnun bandalagsins árið 1999.
Jafnframt ræða ráðherrarnir um háa verðbólgu á svæðinu en hún mælist 3,2%.
Meðal skýringa á hækkun á gengi evrunnar eru vangaveltur um að stýrivextir verði lækkaðir enn frekar í Bandaríkjunum.
Ráðherrarnir hafa verið tregir til þess að gagnrýna hátt gengi evrunnar eða hækkun á verðlagi. Helsta stjórntækið til þess að kæla niður hagkerfið er í höndum Seðlabanka Evrópu en bankaráð hans kemur saman á fimmtudag til þess að ákveða hvort hækka eða lækka eigi stýrivexti bankans. En í dag brá svo við að ráherrarnir voru viljugari að tjá sig um hátt gengi evrunnar en oft áður. Forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker, en hann stýrir evru umræðum, lýsti því yfir að hann væri farinn að hafa djúpar áhyggjur og þörf væri á árverkni.
Seðlabankastjóri Evrópu, Jean-Claude Trichet, braut út af vananum og talaði við fjölmiðla áður en hann fór á ráðherrafundinn og sagði að styrking Bandaríkjadals væri það sem stjórnvöld í Bandaríkjunum óskuðu eftir. En hann hvikar ekki frá þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt sé að Seðlabanki Evrópu haldi sjálfstæði sínu og aðalvandinn sé verðbólgan ekki styrking evrunnar.
En ekki taka allir stjórnendur evrópskra stórfyrirtækja undir þá skoðun Trichet. Samkvæmt upplýsingum frá Airbus þá tapar félagið um einum milljarði evra á því þegar evran hækkar um 10 sent. Frá því 2. janúar hefur evran hækkað úr 1,4726 dölum í 1,5266 dali, eða um rúm 5 sent, sem þýðir 500 milljónir evra tap fyrir Airbus en öll flugvélaviðskipti fara fram í dölum.
Það eru fleiri evrópsk fyrirtæki sem eru að hugsa sinn gang. Til að mynda íhugar þýski bílaframleiðandinn Volkswagen að byggja nýja verksmiðju í Bandaríkjunum til þess að koma í veg fyrir gengistap og Porsche og Daimler eru að skoða hvort flytja eigi framleiðslu til landa eins og Indlands og Kína þar sem laun eru umtalsvert lægri en í Evrópu.