Velta með skuldabréf nam 372 milljörðum í febrúar Kauphöll OMX á Íslandi og er mánuðurinn sá annar veltumesti frá upphafi. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins er heildarvelta með skuldabréf orðin 1.055 milljarðar sem er um 43% af heildarveltu ársins í fyrra.
Á skuldabréfamarkaðinum er það Kaupþing banki sem er með mestu veltuhlutdeildina eða um 34%, næst kom Glitnir banki með um 14,74% og Landsbankinn með 14,68%.
Ekki jafn lítil velta með hlutabréf frá því í nóvember 2006
Lítil velta var með hlutabréf í Kauphöll OMX í síðasta mánuði eða um 133 milljarðar og hefur ekki verið minni síðan í nóvember 2006. Mest voru viðskipti með bréf Kaupþings (58 milljarðar) og Glitnis (28 milljarðar).
365 lækkaði mest
Úrvalsvísitalan lækkaði um 10,6% í mánuðinum. Mest lækkun í mánuðinum var með bréf 365(21,8%), SPRON (21,1%) og Bakkavör Group (18,4%). Bréf Century Aluminum og Atlantic Petrolium hækkuðu í mánuðinum, bréf Century Aluminum um 26,3% og Atlantic Petrolium um 6,1%.
Kaupþing Banki var með mestu hlutdeildina á hlutabréfamarkaði eða um 32%, næst kom Glitnir banki með 26% hlutdeild og því næst Landsbankinn með 14,6% hlutdeild.
Ávöxtunarkrafa skuldabréfa sveiflaðist töluvert í mánuðinum. Það má að einhverju leyti rekja til mismunandi væntinga til vaxtaákvörðunar Seðlabanka Íslands sem hélt stýrivöxtum óbreyttum þann 14. febrúar síðastliðinn sem og væntinga til verðbólgu.
Krafa verðtryggðra bréfa lækkaði í mánuðinum en krafa óverðtryggða hækkaði. Þetta má að einhverju leyti rekja til aukinnar og meiri verðbólgu en flestir höfðu spáð, samkvæmt yfirliti frá OMX.