Fasteignafélagið Property Group, sem er í eigu Straums, Guðmundar Þórðarsonar, Birgis Bieltvedt og þriggja Dana, hefur keypt 11 eignir í miðborg Kaupmannahafnar fyrir 2,5 milljarða danskra króna, 33,84 milljarða íslenskra króna, af fasteignafélagi Oskars Jensen. Um er að ræða eignir á svæðinu í kringum Strikið og Vestergade.
Ekki lán frá íslenskum bönkum
Íslendingar eiga 62,5% hlut í fasteignafélaginu Property Group en Danir 37,5%, samkvæmt frétt Børsen. Í viðtali við Børsen segir Jesper Damborg, forstjóri Property Group, að þrátt fyrir að bakgrunnur fyrirtækisins sé íslenskur þá sé fyrirtækið danskt og því hafi efnahagsástandið á Íslandi og lánsfjárerfiðleikar þar engin áhrif á félagið og rekstur þess. Féð sem var nýtt til að greiða fyrir fasteignirnar hafi ekki komið frá íslenskum bönkum.