Stjórn Kaupþings hefur ákveðið að fresta því að breyta starfrækslugjaldmiðli bankans í evrur fram til janúar 2009 og draga til baka núverandi umsókn um að honum yrði breytt frá og með síðustu áramótum. Kemur fram í tilkynningu að umsóknarferlið hafi tekið lengri tíma en áætlað var og því erfitt að breyta honum héðan af miðað við síðustu áramót.
Stjórn Kaupþings ákvað í fyrra, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla að breyta starfrækslugjaldmiðli bankans í evrur frá og með byrjun árs 2008.
„Vægi evru í rekstri bankans hefur aukist á undanförnum árum og sú þróun mun halda áfram. Nú eru einungis tæplega 13% af heildareignum bankans í íslenskum krónum og minna en 11% af heildarskuldum.
Stjórnin er enn staðráðin í að breyta starfrækslugjaldmiðlinum í evrur til að tryggja að reikningar bankans gefi hverju sinni rétta og skýra mynd af fjárhagsstöðu samstæðunnar. Umsóknarferlið hefur hins vegar tekið lengri tíma en búist var við og nú þegar liðnir eru rúmlega tveir mánuðir af reikningsárinu yrði erfitt að breyta starfrækslugjaldmiðlinum miðað við 1. janúar 2008, einnig í ljósi óróleikans á mörkuðum.
Stjórn bankans hefur lagt fram tillögu fyrir aðalfund þar sem gert er ráð fyrir að heimila stjórn að ákveða að hlutafé bankans verði skráð í evrum í stað íslenskra króna. Gert er ráð fyrir því að uppgjör hlutabréfa í gjaldmiðlum öðrum en íslenskum krónum verði mögulegt á Íslandi fyrir lok árs 2008. Stjórnin telur æskilegt að breyta starfrækslugjaldmiðlinum á sama tíma og hlutaféð er skráð í evrum.
Í ljósi ofangreinds hefur bankinn ákveðið að fresta breytingu á starfrækslugjaldmiðli yfir í evrur fram til janúar 2009 og draga til baka núverandi umsókn," samkvæmt tilkynningu frá Kaupþingi.