Mikillar svartsýni gætti á Wall Street í dag sökum neikvæðra frétta af atvinnumarkaði, og fór Dow Jones verðbréfavísitalan niður fyrir 12.000 stig í fyrsta sinn í 17 mánuði. Vinnumálaráðuneytið greindi frá því í dag að í febrúar hefði störfum fækkað um 63.000.
Verðbréfamiðlarar sögðu svartsýnina stafa af fregnunum af atvinnumarkaðinum, sem aukið hafi ótta við efnahagssamdrátt. Reyndar halda sumir hagfræðingar því fram, að slíkur samdráttur sé þegar hafinn í Bandaríkjunum.
Verðbréf hafa hríðfallið undanfarna mánuði, og olía snarhækkað. Fór það í 106,54 dollara í dag, og hefur aldrei verið hærra.