Fækkun starfa í Bandaríkjunum um 63 þúsund í febrúar er mesta fækkunin þar vestra í fimm ár. Þetta olli titringi á verðbréfamörkuðum og lækkuðu hlutabréfavísitölur á Wall Street um 0,4 til 1,2% í gær, Dow Jones-vísitalan mest. Störfum fækkar annan mánuðinn í röð en í janúar nam fækkunin 22 þúsundum. Höfðu sérfræðingar reiknað með óbreyttum atvinnutölum í febrúar.
Í Wall Street Journal segir að þetta auki enn á áhyggjur fjárfesta af yfirvofandi kreppu, sem og þrýsting á frekari stýrivaxtalækkanir Seðlabanka Bandaríkjanna.