Skandínavíska flugfélagið SAS hefur gert upp reikningana við kanadíska flugvélaframleiðandann Bombardier og dekkjaframleiðandann Goodrich vegna bilana í hjólabúnaði Dash flugvéla félagsins síðast liðið haust. SAS fær ríflega ellefu milljarða íslenskar krónur í skaðabætur.
Samkvæmt Dagens Nyheter hefur SAS jafnframt lagt inn pöntun á 27 nýjum flugvélum með möguleika á að kaupa 24 til viðbótar á góðum kjörum.
Nýju vélarnar verða tvenns konar, þotur af gerðinni CRJ 900 Next Gen og svokallaðar skrúfuþotur af gerðinni Q400 Next Gen. Nýju vélarnar munu koma í stað flota eldri gerðar Q400 véla SAS sem teknar voru úr umferð síðastliðið haust.