Það styttist í að Ólafur Jóhann Ólafsson og Goldman Sachs kaupi hlut í Geysi Green Energy og má niðurstöðu vænta á næstu vikum. Þá er verið að leggja lokahönd á sameiningu GGE og Enex, og munu fjárfestingar sameinaðra félaga nema tæplega 50 milljörðum króna. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.
Eftir ríflega hálfs árs undirbúning má samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gera ráð fyrir að kaup bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs og rithöfundarins Ólafs Jóhanns, aðstoðarforstjóra Time Warner, í Geysir Green Energy gangi eftir á næstu tveimur vikum. Fyrirhugað er að þessir fjárfestar kaupi um 8,5% hlut í félaginu og kaupa þeir hvor í sínu lagi og verður hlutur Ólafs Jóhanns undir helmingi þess hlutar.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE, staðfesti aðspurður að þessi viðskipti væru í burðarliðnum en þau væru ekki frágengin að fullu, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins.
Stjórnir Geysis Green Energy og Enex hafa samþykkt að undirbúa sameiningu félaganna og má búast við að eftir samþykki hluthafafunda verði af sameiningu fyrir apríllok. GGE á um 73% í Enex á móti Reykjavík Energy Invest, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur.