Verðbólga, mæld á tólf mánaða tímabili, reyndist vera 8,7% í Kína í febrúar og hefur ekki mælst jafn mikil í 11 ár, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Kína. Er það einkum hækkun matvælaverðs um 23,3% milli mánaða sem hefur áhrif til hækkunar. Í janúar mældist verðbólgan 7,1% í Kína.
Verðbólga hefur aukist jafnt og þétt í Kína undanfarna mánuði og þrátt fyrir að Seðlabanki Kína hafi hækkað stýrivexti til þess að stemma stigu við þróun verðbólgunnar þá hefur það ekki dugað til. Jafnframt virðist engu skipta þær aðgerðir í efnahagsmálum sem stjórnvöld í Peking hafa gripið til í baráttunni við verðbólguna, að því er fram kemur í frétt BBC.