Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir í viðtali við Bloomberg fréttastofuna að hann telji að íslensku bankarnir muni standa af sér storminn sem nú ríkir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Segir Geir að bankarnir séu vel varðir til þess að takast á við hættuna sem steðjar að og lítil hætta sé á samdrætti í íslensku efnahagslífi.
Viðtalið við Geir birtist á sjónvarpsstöð Bloomberg í gærkvöldi en forsætisráðherra var framsögumaður á ársfundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins sem fram fór í New York í gær.
Fram kemur í umfjöllun Bloomberg að margir fjárfestar hafa valið að selja krónur sem hefur lækkað um 10,5% gagnvart Bandaríkjadal það sem af er ári. Eins kemur fram að skuldatryggingarálag íslensku bankanna sé það hæsta meðal evrópskra banka.
Að sögn Geirs er ljóst að það muni hægja á í íslensku efnahagslífi og það sé af hinu góða. Ljóst sé að ekki verði um harða lendingu að ræða en á sama tíma verði hún ekki mjúk.