Tap Icelandic Group nam 29,3 milljónum evra, sem svarar til 3.217 milljónum króna, á síðasta ári samanborið við 11,4 milljónir evra í tap árið 2006. Vörusala nam 1.384,4 milljónum evra en tekjusamdráttur nam 5,9% á árinu 2007.
Handbært fé frá rekstri fyrir skatta og vexti 57,2 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall er 16,6 % og arðsemi eignfjár er neikvæð um 16,7%. Stjórn Icelandic leggur til við aðalfund félagsins að hlutafé verði aukið um 30 milljónir evra að markaðsverði.
Finnbogi Baldvinsson forstjóri Icelandic Group, segir í fréttatilkynningu „Árið 2007 var Icelandic Group afar erfitt og þar af var fjórði ársfjórðungurinn með slökustu afkomuna. Það hagræðingarferli sem félagið hefur margkynnt að sé í gangi hefur dregist og voru upphafleg markmið um endurskipulagningu félagsins óraunhæf. Einföldun á flóknum rekstri félagsins með fækkun verksmiðja og söluskrifstofa er vel á veg komin.
Aðgerðirnar hafa gert okkur kleift að setja rekstrareiningunum skýrari markmið og er árangur þessarar vinnu farinn að koma í ljós. Félagið er nú vel í stakk búið til að takast á við hlutverk sitt sem leiðandi matvælaframleiðandi í sjávarafurðum," samkvæmt tilkynningu.
Mikill samdráttur var í sölu Icelandic USA strax í upphafi fjórða ársfjórðungs 2007 og hafði efnahagssamdráttur í Bandaríkjunum veruleg áhrif á rekstur félagsins. Þá kom í ljós að rekstur Pickenpack Gelmer í Frakklandi var verri en áður hafði komið fram. Þetta ásamt fleiru leiddi til þess að Icelandic Group náði ekki EBITDA markmiðum sínum, eins og kynnt hafði verið í níu mánaða uppgjöri félagsins, að því er segir í tilkynningu.
Nánar um uppgjörið