Bjartsýnin varaði ekki lengi á bandarískum hlutabréfamörkuðum. Í gær var tilkynnt að fjárfestingarbankinn Bear Stearns hefði óskað eftir neyðarlánum hjá seðlabankanum í New York og JP Morgan Chase og fengið þau og varð það umsvifalaust til þess að fella markaði.
Gengi Bear Stearns féll um 45% strax í upphafi viðskipta og þegar leið á daginn hélt fallið áfram og þegar upp var staðið hafði gengi bankans meira en helmingast, lækkað um 53%. Vart þarf að taka fram að svo mikið hefur gengi bankans aldrei áður fallið á einum degi en þess má geta að valréttarsamningar um hlutabréf bankans benda nú í fyrsta sinn til þess að bankinn gæti orðið verðlaus, þ.e. að gengi bréfanna verði 0.
Eins og fram kemur að framan tók stórbankinn JP Morgan Chase þátt í neyðarfjármögnuninni og á bankinn nú í viðræðum við Bear um frekari fjármögnun til lengri tíma. Bloomberg segir sig hafa heimildir fyrir því að bankinn vilji eignast hluta af starfsemi Bear Stearns.
Bankaáhlaup framundan?
Að sögn erlendra fjölmiðla hefur undanfarna daga verið uppi þrálátur orðrómur um það á Wall Street að lausafé Bear Stearns væri nánast uppurið en það hafa stjórnendur fyrirtækisins þvertekið fyrir. Orðrómurinn hefur hins vegar fælt fjármagnseigendur og miðlara frá því að eiga viðskipti við bankann og því fór sem fór. Í kjölfar þess að neyðarfjármögnunin barst lækkaði matsfyrirtækið Standard & Poor's síðan lánshæfiseinkunn Bear um þrjár skorir, niður í BBB. Stjórnendur bankans fullyrða að hann standi traustum fótum en ótti fjárfesta virðist vera töluverður og segja viðmælendur
CNN að helsti óvinur bankans sé óttinn. Spurningin sé hvort bankinn getið staðist bankaáhlaup.
Í hnotskurn
» Skuldatryggingarálag margra banka hækkaði verulega við tíðindin af Bear Stearns í gær þar sem áhyggjur fjárfesta af frekari byltum jukust.
» Íslensku bankarnir voru þar engin undatekning. Álag Kaupþings hækkaði um 55 punkta og er nú 830 punktar, álag Glitnis hækkaði um 25 punkta í 755 punkta og álag Landsbankans hækkaði um 20 punkta í 605 punkta.