Breska viðskiptablaðið Financial Times segir í dag, að íslenskir saksóknarar séu að skoða hvort nýjar ákærur verði lagðar fram gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugs Group, og Óskari Magnússyni, fyrrverandi stjórnarformanni félagsins, fyrir skattalagabrot á árunum 1998 til 2002.
Blaðið segir að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hafi sent saksóknara efnahagsbrota skýrslu þar sem leitt sé líkum að því að Jón Ásgeir, Óskar, og félagið sjálft hafi brotið gegn skattalögum á fyrrgreindu tímabili.
„Málið tengist Baugi Group. Það nær aftur til áranna 1998 til 2002. Ég mun reyna að taka ákvörðun fyrir sumarhlé. Taki ég ákvörðun um að halda áfram með málið mun ég gefa út ákæru," hefur FT eftir Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota.
Blaðið segir málið snúast um að stjórnendur Baugs hafi á þessum tíma komið sér hjá að greiða tekjuskatt af eigin tekjum og tekjum fyrirtækisins. Haft er eftir ónefndum embættismanni, að málið snúist alls um nokkur hundruð milljónir króna.
Jón Ásgeir var ásamt Geir H. Haarde, forsætisráðherra í New York og fleiri íslenskum kaupsýslumönnum í vikunni þar sem rætt var við banka og fjárfesta. Jón Ásgeir ræddi m.a. um fjárfestingarstefnu Baugs en fyrirtækið íhugar að leggja fram tilboð í vöruhúsið Saks.
Gert er ráð fyrir að Baugsmálið svonefnda verði tekið fyrir í Hæstarétti í maí. Jón Ásgeir var á síðasta ári dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi fyrir bókhaldsbrot í málinu en sýknaður af flestum ákæruatriðum.
Baugur tilkynnti í gær, að yfirskattanefnd hefði fallist á að lækka endurálagningu ríkisskattstjóra á félagið vegna áranna 1998-2002 um 75 milljónir. Baugur Group sendi tilkynningu til breska fjármálaeftirlitsins og segist þar vona að þessi niðurstaða hafi jákvæð áhrif á þá ákvörðun hvort nýjar ákærur verði gefnar út eða ekki.
Að sögn FT segir Baugur í tilkynningunni, að Jón Ásgeir hafi lagt fram kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna þess hvernig staðið var að málarekstrinum gegn honum á Íslandi.