Gríðarlegt flökt er á gengi krónunnar í miklum viðskiptum og lækkaði hún um 4% fyrr í morgun frá lokagildi hennar í gær, samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Glitnis.
Heldur hefur dregið úr lækkuninni á síðustu mínútum og nemur lækkun hennar 2,5%. Gengisvísitalan er nú 157,05 stig en fór hæst í 159 stig fyrr í morgun. Alls hafa verið 35 milljarða króna viðskipti á millibankamarkaði það sem af er degi.
Gengi Bandaríkjadals er nú 77,34 krónur, evran er 122,30 krónur og pundið 155,74 krónur.