Óinnleystur hagnaður viðskiptabankanna þriggja af lækkun krónunnar á undanförnum vikum nemur um 154 milljörðum króna. Þar af er hagnaður Kaupþings langmestur, ríflega 101 milljarður króna frá áramótum. Hinir bankarnir tveir komast ekki nálægt þeim upphæðum sem Kaupþing hefur hagnast um en hagnaður þeirra af falli krónunnar er engu að síður töluverður.
Rétt er að geta þess að þessar tölur eru miðaðar við upplýsingar í uppgjörum bankanna fyrir árið 2007, þ.e. þær byggjast á gjaldeyrisjöfnuði bankanna frá áramótum en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa allir bankarnir bætt við sig erlendum gjaldeyri það sem af er ári þannig að óinnleystur hagnaður þeirra af lækkun krónunnar er ef eitthvað er meiri en fram kemur hér að ofan og í meðfylgjandi töflu.
Gengisvísitalan var 152,279 stig samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands í gær, sem er 8,1% hækkun frá sl. föstudegi, og hefur hún aldrei verið skráð hærri. Hæsta gildi gengisvísitölunnar fram til gærdagsins var 151,16 stig sem skráð var í lok nóvember 2001. Um áramót var vísitalan 120 stig og hefur gengi krónunnar því lækkað um 26,9% það sem af er ári. Í þeim útreikningum sem hér birtast er miðað við viðmiðunargengi Seðlabankans.
Bankarnir skilgreina neikvæðan gjaldeyrisjöfnuð sinn, séð frá krónum, sem vörn á eiginfjárhlutfalli, eigið fé er í íslenskum krónum og skreppur efnahagsreikningurinn ört saman við mikla styrkingu krónunnar en þenst við lækkun af því tagi sem nú er uppi á teningnum. Um leið sveiflast eiginfjárhlutfallið til og frá, sem ekki myndi auka traust á viðkomandi félagi. Út frá skilgreiningunni er því um eins konar sveiflujöfnunarbúnað að ræða.
Halli á gjaldeyrisjöfnuði Landsbankans var um áramót ríflega 114 milljónir króna og hefur bankinn hagnast um tæplega 30 milljarða það sem af er ári. Halli á gjaldeyrisjöfnuði Glitnis nam tæplega 78 milljörðum króna um áramótin og hefur bankinn hagnast um tæpa 23 milljarða frá áramótum.