Gengi krónunnar hélt áfram að lækka við opnun í morgun. Nemur lækkun krónunnar nú 1,22% frá lokun markaða í gær. Gengisvísitalan stendur í 157,40 stigum en fór hæst í 158,30 stig sem er lækkun krónunnar um rúm 2%. Bandaríkjadalur er 77,68 krónur, evra 122,44 krónur og pund 155,58 krónur.
Krónubréf að nafnvirði 25 milljarðar króna á gjalddaga í dag
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að krónubréf að nafnvirði 25 milljarðar króna falla á gjalddaga í dag. Austurríska ríkið gaf út bréfin fyrir ári síðan og var Landsbankinn umsjónaraðili með útgáfunni.
„Gera má ráð fyrir að ólíkt öðrum krónubréfum séu bréfin
að mestu í eigu innlendra aðila og hafi því ekki haft teljandi áhrif á
gengi krónunnar nú í aðdraganda gjalddagans. Að deginum í dag meðtöldum
hafa alls 100 ma. krónubréfa gjaldfallið á árinu að viðbættum vöxtum og
nema heildarútistandandi krónubréf nú ríflega 369 mö., eða um 30% af
vergri landsframleiðslu. Hefur krónubréfastaðan ekki verið minni frá
því í apríl á síðasta ári."
Útgáfa ársins nemur nú
ríflega 98 milljörðum króna, en enn hefur engin útgáfa litið dagsins ljós í
marsmánuði. „Kemur það ekki á óvart í ljósi þess að vaxtamunur við
útlönd hefur minnkað hratt undanfarnar vikur á vaxtaskiptamarkaði og er
nú nánast enginn. Hefur væntur ávinningur af krónubréfaútgáfu farið
minnkandi af þeim sökum.
Nokkrir smáir krónubréfagjalddagar eru framundan í apríl, en þá gjaldfalla alls krónubréf að fjárhæð 16 ma. auk vaxta. Þá eru 2 ma. krónubréfa á gjalddaga í maí og 15 ma. í júní. Á seinni hluta ársins falla svo krónubréf að nafnvirði 109,5 ma. á gjalddaga.
Ætla má að
lítið verði um krónubréfaútgáfur á meðan aðgengi að erlendu lánsfé er
takmarkað og áhættufælni fjárfesta á alþjóðamörkuðum mikil líkt og
verið hefur að undanförnu. Útgáfan það sem af er ári hefur þó þegar
mætt gjalddögum þeim sem verða í apríl og maí þar sem þeir 25 ma. sem
gjaldfalla í dag hafa ekki útflæði gjaldeyris í för með sér," að því er fram kemur í Morgunkorni Glitnis.