Forstjórar stærstu banka Bretlands munu síðar í dag eiga fund með Mervyn King, bankastjóra Englandsbanka, daginn eftir að hlutabréf ýmissa breskra banka lækkuðu umtalsvert í verði meðal annars vegna orðróms á markaði um stöðu þeirra.
Samkvæmt upplýsingum frá Englandsbanka er langt síðan að fundurinn var ákveðinn og að hann tengist ekki því umróti sem myndaðist í kauphöllinni í Lundúnum í gær.
Í gær sendi Englandsbanki frá sér yfirlýsingu um að ekkert væri hæft í því að breski bankinn HBOS þyrfti á neyðarláni að halda frá seðlabankanum. Í kjölfarið róaðist aðeins ástandið í bresku kauphöllinni en bréf HBOS voru nánast í frjálsu falli um morguninn. Þegar viðskiptum lauk síðdegis í gær nam lækkun HBOS 7% en bréf bankans hafa hækkað lítillega á ný í dag.
HBOS bankinn er stærsti lánveitandi húsnæðislána í Bretlandi en hann er hluti af samstæðu Royal Bank of Scotland. HBOS er fimmti stærsti banki Bretlands.
Breska fjármálaeftirlitið hefur hafið rannsókn á því hvort einhverjir verðbréfamiðlarar hafi sett orðróminn á stað í þeim tilgangi að innleysa hagnað með því að kaupa á lágu gengi og selja síðan þegar verð hækkar á ný.