Kaupþing hefur hækkað um 6,62% í Kauphöll Íslands það sem af er degi og í Stokkhólmi hafa bréf bankans hækkað um 4,09% en umtalsverð hækkun varð á Kaupþingi þar á fimmtudaginn. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 3,59%. SPRON hefur hækkað um 3,91% og Færeyjabankinn um 3,57%.
Hlutabréfavísitölur hafa hækkað alls staðar á Norðurlöndum. Í Ósló nemur hækkunin 0,73%, Stokkhólmi 3,61%, Helsinki 2,58% og Kaupmannahöfn 2,59%. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur hækkað um 3,29%.
Gengi krónunnar hefur hækkað um 2,40% frá því viðskipti hófust klukkan níu í morgun og nema viðskipti á gjaldeyrismarkaði 25,6 milljörðum króna á einungis rúmri klukkustund. Gengisvísitalan stóð í 157,20 stigum við opnun í morgun en er nú 153,50 stig.
Gengi Bandaríkjadals er 76,55 krónur, evran er 119 krónur og pundið 152,43 krónur.