Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að gera nokkrar breytingar á reglum bankans. Bankinn segir, að ekki sé um að ræða miklar breytingar en búist sé við því að þær liðki nokkuð fyrir viðskiptum á fjármálamörkuðum, einkum á millibankamarkaði í íslenskum krónum.
Þá hefur verið ákveðið að Seðlabankinn gefi út framseljanleg innstæðu bréf en við það eykst framboð tryggra skammtímaverðbréfa á markaði. Segir bankinn að talið sé að mikil eftirspurn sé eftir stuttum tryggum verðbréfum og þess vænst að með þessum bréfum megi koma til móts við hana. Í fyrsta flokki verða gefin út bréf allt að 50 milljörðum króna.
Þá segir Seðlabankinn að ríkissjóður muni í vikunni gefa út ríkisbréf með gjalddaga eftir um níu mánuði.
Breyttar reglur um bindiskylduTilgangur breytingarinnar er að samræma reglurnar þeim sem gilda hjá Evrópska Seðlabankanum svo sem verða má. Þótt tölur liggi ekki fyrir má ætla að breytingin létti talsvert á bindiskyldu þeirra banka sem starfrækja útibú erlendis.
Veðlán SeðlabankansVarðandi hæf bréf til tryggingar í viðskiptum við Seðlabankann hefur verið ákveðið að nægilegt sé að sértryggð skuldabréf hafi tiltekið lánshæfismat en fallið frá því skilyrði að útgefandi slíkra bréfa hafi lánshæfismat. Breytingin getur auðveldað smærri fjármálafyrirtækjum að afla sér lausafjár gegn tryggum veðum.